Bandaríkjamenn eru að draga sig út úr stríðinu í Írak og Afganistan, Osama bin Laden er dauður og ríkissjóður Bandaríkjanna er að sökkva í skuldafen. Þetta þýðir minni umsvif í hergagnaiðnaði í Bandaríkjunum og það sést á þróun hlutabréfa í fyrirtækjum sem framleiða hergögn.
Fox-news fjallar um þetta mál í fréttaskýringu sem ber yfirskriftina, „Gullni áratugur fyrirtækja í varnarmálum að ljúka.“
Frá árás Al-Qaeda á Bandaríkin 11. september 2001 hafa hernaðarútgjöld Bandaríkjanna tvöfaldast og farið í 700 milljarða dollara. Hagnaður fyrirtækja í hergagnaiðnaði hefur á sama tíma fjórfaldast og var samtals 25 milljarðar dollara á þessu 10 ára tímabili.David Berteau, sérfræðingur í varnarmálum, segir í samtali við Fox að toppi útgjaldanna hafi verið náð og nú liggi leiðin niður á við.
Bandaríkjaþing samþykkti í síðasta mánuði að hernaðarútgöld yrðu 350 milljarðar dollara á næstu 10 árum. Samkomulagið gerir ráð fyrir frekari niðurskurði á útgjöldum ríkissjóðs, en þingið hefur frest fram í nóvember til að ná samkomulagi um hvernig þetta verður útfært.