Meira en 1000 manns hafa verið ákærðir fyrir þátttöku sína í óeirðunum í London í síðustu viku. Lögregla segir að fleiri ákæra sé að vænta, en lögreglumenn eru nú í óðaönn að skoða 20.000 klukkustundir af upptökum úr öryggismyndavélum.
Alls hafa 1005 verið kærðir vegna ýmiss konar brota sem tengjast óeirðunum af þeim 1733 sem handteknir hafa verið í London. Á landinu öllu hafa 1179 verið kærðir. 115 hafa verið dæmdir, þar af eru að minnsta kosti 26 yngri en 18 ára.
„Rannsókninni er langt í frá lokið,“ segir Tim Godwin hjá miðborgarlögreglunni í London. Hann segir að um 500 rannsóknarlögreglumenn frá Scotland Yard hafi komið að rannsókninni. „Við höldum áfram þrotlausum rannsóknum okkar við að finna þá sem bera ábyrgð á ofbeldinu í síðustu viku,“ segir Godwin.
Meirihluti þeirra handteknu var tekinn höndum fyrstu dagana eftir óeirðirnar. Lögreglu hafa borist margar ábendingar sem hafa leitt til ákæru, einkum eftir að myndbandstökur voru gerðar opinberar.
Einnig hafa myndir af grunuðum verið birtar á vefsíðunni Flickr, en tæplega átta milljónir manna hafa skoðað myndirnar.