Þróunarkenningin er kenning með götum að sögn Ricks Perry, ríkisstjóra Texas og frambjóðanda í forvali bandarískra repúblikana fyrir forsetakosningarnar á næsta ári. Vefsíða USA Today segir frá þessu í dag.
Um var að ræða svar við spurningu ungs drengs sem spurði Perry á fundi í dag að frumkvæði móður sinnar hversu gömul Jörðin væri og um þróunarkenninguna.
„Ég heyrði að móðir þín var að spyrja um þróunarkenninguna. Það er kenning sem er í gangi og það eru ákveðin göt í henni,“ sagði Perry. Hann bætti við að almenningsskólar í Texas kenndu bæði um sköpunarkenninguna og þróunarkenninguna. „Ég býst við að þú sért nógu klár til þess að átta þig á því hvor sé sú rétta.“