Forseti leiðtogaráðs Evrópusambandsins, Herman van Rompuy, sakar fjármálamarkaði um að gera of mikið úr skuldavanda evrusvæðisins og að hafa valdið miklum sveiflum í fjármálalífi heimsins með því að leita í öruggari gjaldmiðla en evruna.
„Markaðirnir hafa ekki alltaf rétt fyrir sér,“ sagði hann í viðtali við belgísku útvarpsstöðina RTBF og bætti við að evruskuldabréf, sem öll ríki evrusvæðisins væru ábyrg fyrir, yrðu ekki gefin út fyrr en komið hefði verið á samræmingu á fjármálum ríkjanna.
„Við þurfum að senda frá okkur sömu skilaboðin. Það er óhjákvæmilegt að um verði að ræða nokkrar raddir. En allir verða að flytja sömu skilaboðin,“ sagði van Rompuy. Þetta kemur fram á fréttavef breska dagblaðsins Daily Telegraph í dag.