Forsætisráðherra Ástralíu, Julia Gillard, lýsti í viðtali við Wall Street Journal fyrir helgi áhyggjum sínum af stöðu efnahagsmála í heiminum. Benti hún einkum á að langur vegur væri frá því að skuldavandi Evrópusambandsins hefði verið leystur og að Bandaríkin væru aðeins að byrja að taka á fjárlagavanda sínum.
Gillard sagði getuleysi leiðtoga ESB til þess að róa fjármálamarkaðina sem hefðu áhyggjur af stöðu evrusvæðisins væri stærsta vandamál alþjóðahagkerfisins. Einnig væri ástæða til þess að hafa áhyggjur af stöðu mála í Bandaríkjunum.
„Það sem er að gerast í ESB er að mínu mati meira áhyggjuefni en staðan í Bandaríkjunum,“ sagði Gillard í viðtalinu.