Íslendingar fagna með Eistum

Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra og Urmas Paet, utanríkisráðherra Eistlands
Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra og Urmas Paet, utanríkisráðherra Eistlands

Um helgina er haldið upp á að í ár eru tuttugu ár liðin frá því Eistland hlaut sjálfstæði. Íslendingar koma við sögu í hátíðarhöldunum enda Ísland fyrst þjóða til að lýsa yfir stuðningi við sjálfstæði Eistlands.

Í morgun fóru fram pallborðsumræður í Tallin þar sem fyrrum leiðtogar og núverandi leiðtogar nokkurra landa tóku þátt. Byrjað var að ræða hvort staða landsins í dag endurspeglaði andrúmsloftið fyrir tuttugu árum síðan.

Einn mælenda var Jón Baldvin Hannilbalsson fyrrverandi utanríkisráðherra Íslands. Jón Baldvin sagði Eistland í betri stöðu í dag en fyrir tuttugu árum. Landið væri búið að skerpa á einkennum sínum sem þjóð. Hann ræddi um mikilvægi Eistlands í alþjóðlegu samhengi og afhverju lítil þjóð eins og Ísland ákvað að lýsa yfir stuðningi við Eistland á sínum tíma.

Hann lauk ræðu sinni á að segja að Eistland væri skólabókardæmi um mikla velgengni lítils lands sem fékk sjálfstæði. Meðal annarra í pallborðinu voru Esko Aho fyrrum forsætisráðherra Finnlands, Leszek Balcerowicz fyrrum forsætisráðherra Póllands, Ivars Godmanis fyrrum forsætisráðherra Lettlands og Fedor Shelov-Kovedyaev fyrrum utanríkisráðherra Rússlands.

Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra tók einnig þátt í pallborðsumræðum núverandi leiðtoga þar sem rætt var hvernig reynsla síðustu tuttugu ára kemur til með að reynast við að takast á við næstu tuttugu ár.

Össuri var tíðrætt um að ef litlar þjóðir standa saman geti þær haft mikil áhrif. Með honum í pallborði voru utanríkisráðherrar Litháens, Svíþjóðar, Danmerkur, Lettlands, Finnlands og  Eistlands.

Síðdegis á Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, fund með forseta Eistlands. Auk þess að ávarpa gesti  á hátíðartónleikum í kvöld þar sem 20 ára sjálfstæði Eistlands er fagnað. Tónlistarkonan Sinead O'Connor kemur fram á undan Ólafi.

Á morgun verður Íslendingadagur haldinn í Tallinn. Í tengslum við hann verða sýningar íslenskra listamanna opnaðar víða um borgina og íslenskir tónlistarmenn koma fram. Meðal þeirra eru;  Retro Stefson, Karlakór Kjalnesinga, Hjaltalín og Lay Low. Ólafur Ragnar mun þá opna sýningu á íslenskri nútímahönnun.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert