Spænskir lögreglumenn fara offari

Spænskir óeirðalögreglumenn við störf í Madríd. Myndin er ekki úr …
Spænskir óeirðalögreglumenn við störf í Madríd. Myndin er ekki úr myndbandinu sem um ræðir. Reuters

Myndband sem sýnir tíu óeirðalögreglumenn í Madríd, höfuðborg Spánar, berja almenna borgara að því er virðist að ástæðulausu, fer nú eins og eldur í sinu um spænska netheima. Mótmæli hafa verið í borginni undanfarna daga og var myndbandið tekið upp á götu einni sem liggur út frá torginu Puerta del Sol í miðju borgarinnar.

Þar sjást lögreglumenn fara um í þeim tilgangi að rýma götuna og koma fólki burt frá miðbænum. Þótt atburðarásin sé nokkuð óskýr sést þó hvernig lögreglumenn beita grófu ofbeldi þar sem það virðist á engan hátt nauðsynlegt og engin hætta steðjar að. Sést þar sem þeir slá til konu sem segir eitthvað við þá, en þegar félagi hennar reynir að halda á henni burt til að koma í veg fyrir frekari átök veitast lögreglumenn að honum og einn þeirra veitir honum kylfuhögg í hnésbótina til að reyna að fella hann, þar sem hann heldur á konunni.

Þá sést einnig hvar lögreglumennirnir berja ljósmyndara, sem í myndbandinu kveðst vera blaðamaður, í götuna svo hann liggur eftir. Í því tilviki virðist beiting ofbeldis sömuleiðis algerlega ónauðsynleg. Stuttu síðar kveðst hann hafa misst meðvitund eitt augnablik. Myndbandið vekur reiði, en vefútgáfa spænska blaðsins El País hefur birt frétt um myndbandið og segir lögreglumennina beita ofbeldi gegn saklausum borgurum.

Myndbandið sjálft má annars finna hér, á Youtube.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert