Assad hunsar tilmæli

Bashar al-Assad, forseti Sýrlands.
Bashar al-Assad, forseti Sýrlands. Reuters

Bashar al-Assad, forseti Sýrlands, hunsar öll tilmæli Vesturlanda um að fara frá völdum. „Svona ætti ekki að tala um forseta, sem var kosinn af þjóð sinni,“ segir Assad.

Þetta sagði hann í viðtali við ríkissjónvarpsstöð Sýrlands.  „Orð þeirra (Vesturlandabúa) eru einskis virði,“ sagði Assad.

Sendinefnd frá Sameinuðu þjóðunum er nú í landinu og kannar ástand mannréttindamála, en meira en 200 manns hafa látið lífið í mótmælunum.

Rauði krossinn vonast til að fá leyfi til að koma til landsins og kanna ástand pólitískra fanga í fangelsum landsins, en talið er að um 10.000 manns hafi verið fangelsaðir vegna þátttöku í mótmælum gegn stjórnarfari í landinu.

Í viðtalinu sagði Assad að sveitarstjórnarkosningar yrðu haldnar í landinu í desember og þingkosningar yrðu í febrúar. Hann sagði að ný lög um stjórnmálaflokka myndu taka gildi í þessari viku.

Hann hafnar alfarið að fara að tilmælum Vesturlanda. „Þegar þeir tala um umbætur, þá eiga þeir við að við eigum að láta þá fá allt sem þeir vilja. Að við gefum eftir réttindi okkar. Þeir ættu ekki að láta sig dreyma um það, við munum ekki beygja okkur fyrir þeim.“

Assad kom síðast fram í sjónvarpi 20. júní og viðtalið í dag var fjórða sjónvarpsviðtalið sem hann veitti frá upphafi mótmælanna um miðjan mars.

Fjöldi þjóðarleiðtoga hvetur Assad  til að láta af völdum. Þar á meðal eru leiðtogar Bandaríkjanna, Bretlands, Frakklands, Þýskalands og Spánar.

Evrópusambandið undirbýr nú bann við kaupum á hráolíu frá Sýrlandi og er líklegt að það gangi í gildi í næstu viku.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert