Nauðsynlegt er að koma á fót embætti eins fjármálaráðherra fyrir öll ríki evrusvæðisins með völd yfir fjármálum og skattamálum ríkjanna ef finna á lausn á skuldavanda svæðisins að mati Martins Blessings, bankastjóra Commerzbank, sem er annar stærsti banki Þýskalands og að fjórðungi í eigu þýska ríkisins.
„Við þurfum raunverulegan
evrópskan fjármálaráðherra sem hefur viðeigandi völd,“
segir Blessing í grein í þýska dagblaðinu Welt am Sonntag í dag en
Reuters fjallar um hana á fréttavef sínum.
Þar kemur fram að koma þurfi á einni fjármálastjórn á evrusvæðinu
sem geti tekið völdin af evruríkjum sem ekki fylgja settum reglum og
geti lagt á eigin skatta og gert mögulegt að gefa út evruskuldabréf sem
öll evruríkin myndu bera sameiginlega ábyrgð á.
Blessing gefur lítið fyrir þær aðgerðir sem Angela Merkel, kanslari Þýskalands, og Nicolas Sarkozy Frakklandsforseti kynntu í síðustu viku til þess að reyna að bjarga evrunni og sagði þær engan veginn ganga nógu langt.
Í greininni segir Blessing að eini
valkosturinn við það að koma á einni fjármálastjórn evruríkjanna sé að
ríkin taki aftur upp sjálfstæða gjaldmiðla. Ef evran yrði hins vegar
gefin upp á bátinn myndi það þýða efnahagslegt og pólitískt hrun
Evrópusambandsins.
„Ef við komumst að þeirri niðurstöðu að þrátt fyrir alla fyrirhöfnina getum við ekki skapað lagalega og pólitíska umgjörð fyrir sameiginlegan gjaldmiðil okkar ættum við ekki að vera hrædd við að segja skilið við evruna,“ sagði Blessing ennfremur.