Íslendingadagur í Tallinn

Ólafur Ragnar Grímsson.
Ólafur Ragnar Grímsson.

Íslenska fánann má sjá víða á lofti í Tallinn í Eistlandi í dag. Ástæðan er sérstakur Íslendingadagur sem er haldinn í borginni.  

Í gær fögnuðu Eistar því að tuttugu ár eru liðin frá því að þeir endurheimtu sjálfstæði sitt. Íslendingadagurinn er haldinn til að þakka þjóðinni fyrir að vera fyrst landa til að styðja Eista í sjálfstæðisbaráttunni á sínum tíma. Það var Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, sem setti Íslendingadaginn formlega á miðnætti í gærkvöldi að loknum flutningi Sinead O'Connor á laginu „Nothing Compares 2 U“.

Ólafur Ragnar sló lokapunktinn á stórum sjálfstæðistónleikum sem voru haldnir í gær.

Ólafi Ragnari var fagnað eins og  poppstjörnu og kölluðu áhorfendur þakkir til hans að loknum nokkrum vel völdum setningum sem hann flutti á eistnesku.

Eistar virðast vera mjög þakklátir íslensku þjóðinni fyrir stuðninginn og enn minnugir þess að sjálfstæði lítilla þjóða er ekki gefið.

Tónlistarmaðurinn Ólafur Arnalds hóf svo leik í dag á hádegi á þaki stórrar verslunarmiðstöðvar þar sem er rekið kvikmyndahús undir berum himni.

Fjölmenni var á tónleikum hans eins og á öllum viðburðum íslenskra listamanna það sem af er degi. Það var nánast troðningur á tónleikum Snorra Helgasonar, en hann lék í litlu porti í gamla bænum, á meðan Karlakór Kjalnesinga og Retro Stefson fylltu Íslendingatorgið ekki langt frá.

Þar opnaði Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra líka „Inspired by Iceland“-matarmarkað.  

Nýverið var opnuð sýning á íslenskri nútímahönnun og eiga Lay Low, Mosfellskórinn og Hjaltalín leik síðar í dag. Í kvöld verður svo haldið Íslendingapartí þar sem fjöldi íslenskra listamanna kemur einnig fram.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert