Mexíkósk kona, sem fyrir þremur árum var handtekin í Tennessee í Bandaríkjunum fyrir að vera ólöglegur innflytjandi, hyggst nú fá fram úrskurð alríkisdómstóls um að hún megi búa í Bandaríkjunum, þar sem hún varð fórnarlamb lögbrota lögreglumanna. Hún vill fá svonefnt U-dvalarleyfi, en slíkt hefur aðeins einu sinni áður verið veitt af alríkisdómara en er yfirleitt frekar veitt af stofnunum í málefnum innflytjenda.
Hún hefur nú unnið einkamál gegn lögregluyfirvöldum í Nashville og Davidson-sýslu og henni verið dæmdar 200.000 dala bætur. Greint er frá þessu á vef CNN.
Þannig var mál með vexti að þegar konan, Juana Villegas, var handtekin í júlí 2008, fyrir að vera ekki með ökuskírteini á sér þar sem hún ók heim eftir tíma hjá lækni, var hún komin níu mánuði á leið. Hún var færð í gæsluvarðhald og var þar þangað til tveimur dögum síðar, þegar hríðir byrjuðu og hún var flutt á sjúkrahús til að fæða.
Þegar þangað var komið neituðu lögreglumenn að fara út úr herberginu þegar hún klæddi sig úr fötunum. Þá slökktu þeir á símanum hennar svo hún gæti ekki hringt í manninn sinn og látið hann vita að hún væri að fara að fæða. Þegar hún lagðist í rúmið þar sem hún skyldi fæða barnið hlekkjuðu lögreglumennirnir hana við rúmið á annarri hendi og öðrum fæti.
Þetta kalla starfsmenn sjúkrahússins í Nashville villimannslegt brot gegn læknisfræðilegum viðmiðum, samkvæmt dómsskjölum, en hlekkirnir voru þó fjarlægðir áður en hún fæddi barnið.
Eftir að hún hafði fætt og gegn fyrirskipunum læknis hlekkjaði einn lögreglumaðurinn hana aftur við rúmið, samkvæmt dómsskjölunum. Þessi stefna lögregluembættisins, sem lögreglumennirnir unnu eftir, gengur gegn stjórnarskrám Tennessee og Bandaríkjanna, að sögn lögmanns Villegas.
Villegas hafði einu sinni verið rekin úr landi, eftir að hafa verið handtekin sem ólöglegur innflytjandi í San Diego í Kalíforníu, en sneri aftur til Bandaríkjanna ólöglega eftir það og var búin að búa þar um árabil. Þegar hún var handtekin árið 2008 var elsti sonur hennar 14 ára, en hann er fæddur í Bandaríkjunum.