Ögurstund í Líbíu

Líbískir uppreisnarmenn.
Líbískir uppreisnarmenn. Reuters

Bardagar geisa nú í og í kringum Trípólí, höfuðborg Líbíu. Uppreisnarmenn sækja stöðugt á, en talsmaður stjórnarhers Gaddafis segir að borgin sé vel varin af þúsundum stjórnarhermanna.

„Við erum með þúsundir atvinnuhermanna og sjálfboðaliða sem eru tilbúnir til að verja borgina fyrir uppreisnarmönnum, “segir talsmaðurinn, Mussa Ibrahim. Hann viðurkenndi þó að átök hefðu verið í borginni, en þau hefðu verið „minniháttar“. „Ástandið er undir okkar stjórn,“ segir Ibrahim.

Stöðugar sprengingar og skothríð skekja borgina, en uppreisnarmenn segjast nú vera komnir nálægt því að koma Gaddafi frá völdum. Aðgerðaáætlun hefur nú verið virkjuð, en markmið hennar er að einangra Gaddafi og neyða hann þannig til að gefast upp eða flýja land.

Uppreisnarmenn fullyrða að þeir hafi náð þremur mikilvægum borgum á sitt vald. Gaddafi hvetur nú stuðningsmenn sína til að fylkja liði og frelsa borgir sem eru „í haldi svikara og rotta“.

Líbísk yfirvöld hafa sent landsmönnum sms-skilaboð þar sem þeir eru hvattir til að „fækka í hópi svikara“ með því að beita vopnum.

Ahmed Jibril, talsmaður uppreisnarmanna, segir að aðgerðir séu samstarf þjóðarráðs uppreisnarmanna og NATO. Það hefur þó ekki fengist staðfest.

„Við ætlum að komast inn í Trípólí í dag,“ segir einn uppreisnarmannanna.

Skotið var á skip frá Möltu, sem kom til Trípólí til að flytja erlenda ríkisborgara á brott, og þurfti skipið frá að hverfa




mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert