Uppreisnarmenn í Líbíu eru nú á Græna torginu í miðborg Tripolí en torgið hefur verið eitt af helstu táknum valda Múammars Gaddafis.
Bein útsending er frá torginu í Sky sjónvarpsstöðinni og sást þar þegar uppreisnarmenn rifu niður veggspjöld með myndum af Gaddafi. Fréttamaður Sky sagði að kveikt hefði verið myndunum og grænum fánum Líbíu.
Mikil fagnaðarlæti eru á torginu og skotið er af byssum upp í loftið. Ungir menn, sem margir veifa fána uppreisnarmanna, sjást á myndunum hrópa og dansa af gleði.
Torgið var byggt þegar Líbía var ítölsk nýlenda. Það var nefnt Sjálfstæðistorgið eftir að landið varð konungsríki eftir síðari heimsstyrjöld. Eftir að Gaddafi náði völdum árið 1969 var það nefnt Græna torgið en grænt var einkennislitur stjórnmálahreyfingar hans.
Mótmæli hófust á torginu gegn stjórnvöldum í Líbíu í febrúar og í kjölfarið komu stuðningsmenn Gaddafis þar saman. Gaddafi hélt síðan ræður á torginu við nokkur tækifæri.
Saksóknari hjá alþjóðlega glæpadómstólnum í Haag sagði í kvöld, að dómstóllinn hefði fengið staðfestar upplýsingar um að Seif al-Islam, sonur Gaddafis, væri í haldi þjóðarráðs uppreisnarmanna.
Dómstóllinn gaf í sumar út ákæru á hendur Seif al-Islam og föður hans fyrir glæpi gegn mannkyninu. Seif
al-Islam, sem er m.a. með doktorsgráðu frá London School of Economics kom oft fram fyrir hönd stjórnvalda í Líbíu og almennt var talið að hann ætti að taka við völdum af föður sínum.