Vilja snúa við samrunaþróun ESB

Breska þingið. Úr myndasafni.
Breska þingið. Úr myndasafni.

Tugir þingmanna breska Íhaldsflokksins hafa boðað komu sína á fund sem haldinn verður í næsta mánuði þar sem rætt verður um stofnun samtaka sem ætlað er að veita samsteypustjórn íhaldsmanna og frjálslyndra demókrata aðhald í Evrópumálum.

Þrír þingmenn Íhaldsflokksins standa að stofnun samtakanna, George Eustice, fyrrv. fjölmiðlafulltrúi Davids Camerons forsætisráðherra, Chris Heaton-Harris, sem áður sat fyrir flokkinn á Evrópuþinginu, og Andrea Leadsom, samkvæmt frétt breska dagblaðsins Sunday Telegraph.

Er fundurinn boðaður 12. september næstkomandi í sal í húsakynnum breska þingsins sem kenndur er við Margaret Thatcher, fyrrv. forsætisráðherra Bretlands. Samtals hefur 71 þingmaður boðað komu sína en það er um fjórðungur af þingstyrk íhaldsmanna.

Í bréfi þremenninganna til annarra þingmanna Íhaldsflokksins segir að ljóst sé að málefni tengd Evrópusambandinu verði í aðalhlutverki í breskum stjórnmálum í nánustu framtíð. Við þær aðstæður væri gagnlegt að fyrir hendi væru slík samtök til þess að ráðleggja stjórnvöldum.

Þá segir í bréfinu að pólitískt markmið hinna nýju samtaka yrði að snúa við þróun Evrópusambandsins til þessa í átt til sífellt meiri samruna. Búist er við að framtakið valdi titringi innan ríkisstjórnarinnar og þá einkum í röðum frjálslyndra demókrata sem eru mjög jákvæðir gagnvart áframhaldandi veru Bretlands í ESB.

Á hinn bóginn kemur fram í frétt Sunday Telegraph að talið sé að a.m.k. helmingurinn af 148 nýjum þingmönnum Íhaldsflokksins sem tóku sæti á breska þinginu af loknum kosningunum á síðasta ári vilji að Bretar yfirgefi ESB til viðbótar við fjölmarga í röðum eldri þingmanna flokksins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert