Vilja þrýsting á Ísraela

Egyptar mótmæla framferði Ísraela og hafa málað ísraelska fánann á …
Egyptar mótmæla framferði Ísraela og hafa málað ísraelska fánann á skósóla til að sýna vanþóknun sína. Reuters

Arababandalagið fordæmir hernaðaraðgerðir Ísraela gagnvart Palestínumönnum á Gazasvæðinu. Bandalagið biðlar til alþjóðasamfélagsins um að beita Ísraela þrýstingi svo þeir láti af árásunum.

Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá samtökunum, en þau héldu neyðarfund í Kaíró í Egyptalandi í morgun þar sem ástand mála var rætt.

„Við biðlum til Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna um að axla ábyrgð sína og grípa til skjótra aðgerða til að hamla þessum grimmilegu árásum,“ segir í yfirlýsingunni.

Boðað var til neyðarfundarins í morgun eftir að fregnir bárust af því að 15 Palestínumenn hefðu verið drepnir og 50 væru særðir eftir loftárásir Ísraela, en þær hófust eftir að átta Ísraelar létu lífið í árásum í suðurhluta landsins.

Arababandalagið fordæmir einnig „árásargirni Ísraela gagnvart Egyptum“, en þar er vísað til þess að ísraelskir hermenn skutu egypska lögreglumenn til bana við landamæri ríkjanna tveggja.

Arababandalagið hefur lýst yfir stuðningi sínum við Palestínu, sem hyggst sækja um aðild að Sameinuðu þjóðunum í næsta mánuði.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert