Líbískur herforingi, sem Múammar Gaddafi, einræðisherra Líbíu, sendi til Túnis í sumar til að sprengja arabíska sendiráðsbyggingu, hefur gefið sig fram við stjórnvöld í Túnis.
AFP fréttastofan hefur eftir Mokhtar Ben Nasser, höfuðsmanni í her Túnis, að Abdelrazak Rajhi, höfuðsmaður í líbíska hernum, hafi farið yfir landamærin til Túnis 30. júlí eftir að Gaddafi fól honum að sprengja sendiráð ónafngreinds arabaríkis í Túnisborg. Hafði höfuðsmaðurinn með sér 7 kíló af sprengiefni.
Ben Nasser segir, að Gaddafi hafi skipulagt sprengjutilræðið og markmiðið hafi verið að reyna að hafa áhrif á byltinguna í Túnis. Hann sagði að Rajhi hafi gefið sig fram við stjórnvöld í Túnis á föstudag.
Nasser sagði, að Rajhi hefði ekki verið settur í varðhald enda hafi hann látið stjórnvöld í Túnis vita af málinu. „Honum verður þvert á móti þakkað fyrir að koma í veg fyrir að árásin væri gerð."