Hvetja Gaddafi til að gefast upp

Þjóðarleiðtogar hafa nú hver á eftir öðrum komið fram opinberlega og hvatt Múammar Gaddafi, einræðisherra Líbíu, til að gefast upp fyrir uppreisnarmönnum, sem ráða nú nánast allri höfuðborg landsins.

Silvio Berlusconi, forsætisráðherra Ítalíu, sendi nú undir hádegið frá sér yfirlýsingu þar sem Gaddafi er hvattur til að láta af þýðingarlausri mótspyrnu og létta þannig frekari þjáningum af líbísku þjóðinni.

Þá hvatti Berlusconi leiðtoga uppreisnarmanna til að takast á við komandi verkefni „af hugrekki" og lýsti yfir stuðningi Ítala við þjóðarráð uppreisnarmanna.

Franco Frattini, utanríkisráðherra Ítalíu, sagði í morgun að stjórn Gaddafis réði nú aðeins yfir um 10-15% af Tripoli.

Líbía var áður ítölsk nýlenda. Ítalía var helsta viðskiptaland Líbíu áður en uppreisnin gegn Gaddafi hófst í febrúar.  

Í dag lýsti Nabil al-Arabi, framkvæmdastjóri Arababandalagsins, yfir fullum stuðningi við þjóðarráð uppreisnarmanna í Líbíu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert