Harðir bardagar geisa nú í nágrenni miðborgar Trípolí, höfuðborgar Líbíu og virðist skammt í endalok valdatíðar Muammars Gaddafi, einræðisherra. Að sögn fréttamanna sem eru í borginni heyrast hljóð frá þungavopnum og sjálfvirkum rifflum skammt frá miðborginni en uppreisnarmenn hafa náð hluta borgarinnar á sitt vald.
Aðsetur Gaddafi, Bab al-Aziziya, hefur verið skotmark herafla á vegum Atlantshafsbandalagsins undanfarna mánuði og hafa byggingar þess nánast verið jafnaðar við jörðu.
Gaddafi sendi þjóð sinni í þrígang hljóðskilaboð í gegnum fjölmiðla í gær en ekki er gefið upp hvar hann heldur sig. Voru skilaboðin send út á svipuðum tíma og þegar uppreisnarmenn náðu Græna torginu á sitt vald í gærkvöldi.
Gaddafi biðlaði til þjóðar sinnar í sjónvarpsávarpi að „bjarga Trípólí“ og berjast gegn uppreisnarmönnunum, en raunin varð hið gagnstæða. Í miðborginni sáust almennir borgarar rífa niður myndir af Gaddafi og fagna uppreisnarmönnunum. Um sama leyti bárust þær fregnir að tveir synir einræðisherrans hefðu verið handsamaðir
.„Við höfum gefið fyrirmæli um að hann hljóti mannsæmandi meðferð svo hann geti komið fyrir dóm,“ hafði Reuters eftir Mustafa Abdel Jalil, leiðtoga uppreisnarmanna. Þegar ljóst varð í hvað stefndi biðlaði Moussa Ibrahim, talsmaður ríkisstjórnar Gaddafis, til NATO um að koma á vopnahléi og sagði ríkisstjórnina reiðubúna til samningaviðræðna. Hann sagði 1.300 fallna um helgina.
Uppreisnarmennirnir sögðust hins vegar aðeins myndu draga sig í hlé ef Gaddafi viki. Sagði leiðtogi þeirra að Gaddafi og syni hans yrði hleypt úr landi ef þeir gæfust upp. „Það sem við sjáum í kvöld er fall ríkisstjórnarinnar,“ sagði Oana Lungescu, talsmaður NATO, í gærkvöldi.