Bandarísk stjórnvöld segja, að engar vísbendingar séu um að Muammar Gaddafi, einræðisherra Líbíu, hafi yfirgefið landið eftir að uppreisnarmenn náðu stærstum hluta af höfuðborginni á sitt vald í gær.
„Þetta eru bestu upplýsingarnar sem við höfum,“ sagði Josh Earnest, talsmaður Hvíta hússins, við fréttamenn á eyjunni Martha's Vinyard þar sem Barack Obama forseti er í sumarleyfi. „Það bendir ekkert til þess að (Gaddafi) sé farinn.“
Boðað er að Obama muni innan skamms gefa yfirlýsingu um stöðu mála í Líbíu.
Að sögn bresku sjónvarpsstöðvarinnar Sky hefur Angóla boðist til að veita Gaddafi pólitískt hæli.
Al-Jazeera-sjónvarpsstöðin sagði nú síðdegis að tvö lík hefðu fundist í Trípólí og annað þeirra kynni að vera af Khamis, einum sona Gaddafis.