Formaður þjóðarráðs uppreisnarmanna í Líbíu segir, að 400 hafi látið lífið og 2000 særst í þriggja daga bardögum milli uppreisnarmanna og hersveita Múammars Gaddafis í Tripoli. Gaddafi sagði í útvarpsávarpi í kvöld, að hann ætlaði að berjast áfram.
Mustafa
Abdel Jalil, formaður þjóðarráðsins, sagði við frönsku sjónvarpsstöðina
France-24, að um 600 liðsmenn Gaddafis hefðu verið teknir höndum. Baráttunni væri þó ekki lokið fyrr en Gaddafi hefði verið handsamaður.
Jalil sagðist telja, að Gaddafi hefði flúið frá Tripoli; hann væri ekki nægilega hugaður til að berjast sjálfur.
„Ég vona að hann náist á lífi og verði dreginn fyrir rétt svo umheimurinn fái að vita um glæpi hans," sagði Jalil.
Að sögn Reutersfréttastofunnar kom Gaddafi í kvöld fram í útvarpsstöð í Líbíu og sagðist þar ætla að berjast gegn árásarmönnunum þar til yfir lyki. Fullyrti hann, að það hefði verið kænskubragð, að yfirgefa Bab al-Aziziya, höfuðstöðvarnar í Tripoli, sem uppreisnarmenn náðu á sitt vald í dag.
Þá sagði Gaddafi að NATO hefðu lagt al-Aziziya í rúst í 64 loftárásum.