Svo virðist, sem átök uppreisnarmanna og herflokka Múammars Gaddafis hafi færst í aukana í Tripoli. Fréttamaður Sky sjónvarpsstöðvarinnar segir, að miklir skotbardagar séu nú við sjúkrahús í borginni og herþyrlur NATO fljúgi yfir.
Sky segir, að sprengingar hafi kveðið við nálægt Bab Al-Aziziyah, höfuðstöðvum Gaddafis í Tripoli.
Skip, sem átti að flytja um 300 útlendinga frá Tripoli, gat ekki lagst að bryggju í morgun af öryggisástæðum. Skipið er á vegum IOM, stofnunar Sameinuðu þjóðanna.
Skipið mun bíða átekta undan strönd landsins þar til hægt verði að tryggja öryggi starfsmanna og þeirra sem til stendur að flytja á brott.
IOM segir, að þúsundir útlendinga, þar á meðal fólk frá Egyptalandi, Bangladesh og Filippseyjum, hafi undanfarið reynt að komast frá Tripoli.
NATO sagði í morgun, að herflokkar, hliðhollir Gaddafi, hefðu skotið þremur Scud flugskeytum í átt að bænum Misrata síðdegis í gær. Talsmaður NATO sagði að flugskeytin hefðu lent við bæinn en ekki væri vitað hvort þau ollu tjóni.