Bandaríska jarðfræðistofnunin segir, að jarðskjálftinn, sem varð á austurströnd Bandaríkjanna nú undir kvöld, sé einn sá öflugasti sem þar hafi orðið svo vitað sé.
Skjálftinn mældist 5,9 stig og fannst víða á austurströndinni og voru opinberar byggingar rýmdar í Washington og einnig skýjakljúfar í New York. Ekki er vitað hvort mannvirki skemmdust en truflanir urðu á símasambandi í Washington.
Upptök skjálftans voru 47 km frá Charlottesville í Virginíu og 139 km frá Washington.
„Þetta er einn stærsti skjálftinn, sem orðið hefur á austurströndinni lengi, í það minnsta í marga áratugi," sagði Lucy Jones, talsmaður bandarísku jarðskjálftastofnunarinnar, við CNN. „Þetta er ekki einsdæmi en án efa einn af stærstu skjálftunum sem hér hafa orðið."
Þúsundir manna fóru út á götur í New York og þar voru mörg háhýsi rýmd.
„Ég var úti á götu þegar jörðin fór að hristast. Ég leit upp og sá að byggingin sveiflaðist eins og tónkvísl," sagði Mary Daley, sem stóð við skýjakljúf á Wall Street.
„Ég var á 20. hæð í dómhúsinu og það hristist mikið. Allir eru hræddir," sagði Dan Ramater, sem stóð á Center Street. Þegar skjálftinn reið yfir var Cyrus Vance, saksóknari, að hefja blaðamannafund um mál Dominique Strauss-Kahn.
Skammt frá sagðist skrifstofumaðurinn Juan Ramos vera ringlaður. „Ég sá kaffibollann minn hristast en hugsaði ekkert um það. Ég var nýbúinn að gefa blóð og hélt að ég væri með svima," sagði hann.