Jarðskjálfti, sem mældist 5,9 stig, varð á austurströnd Bandaríkjanna í dag. Pentagon, bygging bandaríska varnarmálaráðuneytisins í Washington, var rýmd í kjölfar skjálftans og einnig hluti Hvíta hússins og þinghússins.
Þá voru nokkrir skýjakljúfar rýmdir í New York þar sem skjálftinn fannst greinilega.
Upptök jarðskjálftans voru 54 km frá Richmond í Virginíu og 139 km frá Washington.
Í nótt varð einnig jarðskjálfti á mörkum Colorado og Nýju-Mexíkó á svæði þar sem slíkar náttúruhamfarir eru afar sjaldgæfar. Það sama má segja um austurströnd Bandaríkjanna.