Óvænt útspil sonar Gaddafis

Það virtist koma talsmönnum uppreisnarmanna í Líbíu jafnmikið í opna skjöldu og vestrænum blaðamönnum, að Saif al-Islam, sonur Múammars Gaddafis, skyldi birtast í nótt á hóteli þar sem vestrænir blaðamenn halda til í Tripoli.

Fullyrt hafði verið að Saif væri í haldi uppreisnarmanna og var alþjóðaglæpadómstóllinn í Haag þegar byrjaður að undirbúa viðræður við þjóðarráð uppreisnarmanna um framsal Saifs til Haag.

Þjóðarráðið hefur ekki tjáð sig um málið enn og því hafa engar skýringar fengist á þeim fullyrðingum ráðsins, að Saif væri í haldi.   

Saif sagði í viðtölum við vestræna fréttamenn í nótt, að faðir hans og nokkrar af systrum hans væru á öruggum stað í Tripoli og hersveitir, hliðhollar Gaddafi, hefðu leitt sveitir uppreisnarmanna, sem komu inn í höfuðborgina á sunnudag, í gildru.

„Staðan í Líbíu er frábær, Guði sé lof. Við erum hér. Þetta er okkar land. Þetta er okkar þjóð og við búum hér og munum deyja hér. Og við munum sigra vegna þess að þjóðin styður okkur. Þess vegna munum við vinna. Sjáið fólkið - sjáið það á götunum, allstaðar."

Þjóðarráð uppreisnarmanna hafði áður sagt að þrír synir Gaddafis: Saif Al Islam, Saadi og Mohammed, væru í haldi. Í gærkvöldi bárust síðan fréttir af því að Mohammed hefði tekist að flýja úr stofufangelsi.  Óljóst er hvort Saadi er í haldi. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert