Segir kröfur bandarískra stjórnvalda ganga of langt

Micheline Calmy-Rey, forseti Sviss.
Micheline Calmy-Rey, forseti Sviss. Reuters

Forseti Sviss, Micheline Calmy-Rey, segir síauknar kröfur bandarískra skattayfirvalda um upplýsingar frá Svisslendingum vegna mögulegra skattsvika bandarískra ríkisborgara ganga alltof langt.

„Þessar kröfur ganga of langt, eru lagalega óásættanlegar og pólitískt óréttlætanlegar,“ sagði Calmy-Rey í ræðu sem hún flutti í gær á ráðstefnu með embættismönnum í svissnesku utanríkisþjónustunni, samkvæmt frétt Bloomberg-fréttaveitunnar.

Bandarísk stjórnvöld hafa verið að rannsaka hvort ýmsir svissneskir bankar hafi hjálpað bandarískum ríkisborgurum að leyna fjármunum fyrir skattayfirvöldum í Bandaríkjunum.

Calmy-Rey sagði að sá samningur og fyrirkomulag sem þegar hefði verið komið á milli ríkjanna gengi nógu langt að hennar áliti. Svissnesk stjórnvöld væru ekki sátt við það að vera sagt fyrir verkum af ráðamönnum í Bandaríkjunum, með hvaða hætti þau ættu að koma upplýsingum um málið á framfæri.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert