Repúblikanarnir Mitt Romney, Rick Perry, Ron Paul og Michele Bachmann mælast með svipaðan stuðning og Barack Obama Bandaríkjaforseti á meðal skráðra kjósenda í nýrri Gallup-könnun þar sem kjósendur eru spurðir út í álitlegasta frambjóðandann.
Niðurstöðurnar undirstrika erfiða stöðu Obamas sem hét því að reisa við efnahagslífið þegar hann komst til valda eftir sigur í forsetakosningunum 2008. Atvinnuleysi er hins vegar enn mikið og hagvöxtur lítill á bandarískan mælikvarða.
Spurningunum var þannig stillt upp að spurt var um hvorn valkostinn kjósendur vildu, forsetann eða einn fjórmenninganna.
Varð niðurstaðan sú að Romney (48%) naut meiri stuðnings en Obama (46%). Perry og Obama voru jafnir með 47%. Obama hafði hins vegar betur gegn Ron Paul, mældist með 47% stuðning en Paul með 45%. Þá var forsetinn með forskot á Bachmann, eða 48% á móti 44% stuðningi við „drottningu reiðinnar“, eins og tímaritið Newsweek kýs að kalla hana.