Kim í skemmtilegri lestarferð

„Við höfum verið í mjög skemmtilegri lestarferð," sagði Kim Jong-il, leiðtogi Norður-Kóreu þegar hann hitti Dmitrí Medvedev, forseta Rússlands, á fundi í herstöð í Síberíu í morgun.

Þá sjaldan sem Kim fer í langferðir ferðast hann jafnan í brynvarinni járnbrautarlest. Ferðin til Síberíu hófst í Pyongyang, höfuðborg Norður-Kóreu, á laugardag. Á leiðinni brá Kim sér í sund í sundlaug, sem fyllt hafði verið með vatni úr Baikalvatni og skoðaði vatnsorkuver í Amurhéraði. Hann minntist sérstaklega á þá heimsókn í morgun og sagðist lengi hafa langað til að skoða verið.

Fundur Kims og Medvedevs var í herstöð í borginni Ulan-Ude í Síberíu. Herforingjar sögðu blaðamönnum, að Kim væri fyrsti erlendi þjóðhöfðinginn, sem fengi að fara inn í herstöðina. 

Kim kom akandi á fundarstaðinn í gömlum númerslausum Mercedes Benz bíl, sem hann hafði með sér í lestinni. Kim, sem er 69 ára, virtist þreyttur eftir ferðina og þurfti aðstoð við að ganga upp stiga. 

Medvedev lýsti á eftir mikilli ánægju með viðræðurnar við Kim og talsmaður Rússlandsforseta sagði, að Kim hefði lýst því yfir að Norður-Kórea væri reiðubúin til að gera hlé á kjarnorkutilraunum svo hægt væri að taka upp sex ríkja viðræður um kjarnorkumál á Kóreuskaga að nýju.

Eftir fundinn fylgdust þjóðarleiðtogarnir tveir með rússneskum hermönnum á æfingu. Þeir snæddu síðan kvöldverð og á matseðlinum var m.a. Kamtsjaka-krabbi með lárperu og límónu, pönnukökur með laxahrognum og omulfiskur með sólþurrkuðum tómötum og garðablóðbergi. Þessu var skolað niður með dýrum vínum, þar á meðal Chateau Giscours 2006 frá  Margaux héraði í Bordeaux.

Gert er ráð fyrir að Kim haldi heim á leið síðar í dag. 

Medvedev og Kim ræðast við í Síberíu í morgun.
Medvedev og Kim ræðast við í Síberíu í morgun.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert