Breska blaðið Daily Telegraph segir, að breskir sérsveitarmenn úr svonefndum SAS sveitum aðstoði uppreisnarmenn í Líbíu við að leita að Múammar Gaddafi.
Blaðið segir, að bresku hermennirnir klæðist arabískum fötum og noti sömu vopn og uppreisnarmenn í landinu. Þeir hafi verið í Líbíu í nokkrar vikur og taki nú þátt í leitinni að Gaddafi samkvæmt fyrirskipun frá David Cameron, forsætisráðherra Breta.
Talsmaður breska varnarmálaráðuneytisins sagði við Sky sjónvarpsstöðina í morgun, að ráðuneytið tjáði sig aldrei um aðgerðir sérsveita breska hersins.