„Eina skynsamlega leiðin er að taka evrusvæðið í sundur á skipulagðan hátt og eins fljótt og hægt er áður en allt springur í loft upp,“ segir í aðsendri grein í franska dagblaðinu Le Monde sem birtist í gær, eftir Philippe Villin, fyrrum ritstjóra franska dagblaðsins Le Figaro, og hagfræðiprófessorinn Gérard Lafay.
Þeir segja stjórnmála- og embættismannaelítu Evrópusambandsins verða að viðurkenna að evran hafi mistekist. Leggja þeir til í greininni að byrjað verði á því að fella gengi evrunnar verulega áður en séð verði til þess að evruríkin geti á yfirvegaðan hátt tekið aftur upp fyrri sjálfstæða gjaldmiðla sína.