Þúsundir stuðningsmanna Anne Hazare, sem hefur leitt baráttu gegn spillingu í landinu, eru saman komnar í Nýju Deli í dag til að lýsa yfir stuðningi sínum við málstað hans gegn spillingu á Indlandi.
Hazare hefur verið í hungurverkfalli í 11 daga, og ætlar sér ekki að gefast upp. Læknar segja hann hafa missti sjö kíló, en telja hann þó í stöðugu ástandi. Mótmælin gegn spillingu eru mestu mótmæli í áratugi á Indlandi.
Mótmælin hafa sameinað milljónir manna gegn spilltri stjórnsýslu, sem krefst þess að fólk múti embættismönnum. Hazare er 74 ára og hefur verið líkt við Mahatma Gandhi. Hann hefur lýst því yfir að hann ætli aðeins að rjúfa hungurverkfallið ef þingið fallist á að ræða aðgerðir gegn spillingunni í landinu.
Forsætisráðherra landsins, Manmohan Singh, er undir miklum þrýstingi vegna málsins.