Mannréttindasamtökin Amnesty International hvetja stríðandi fylkingar í Líbíu til að virða mannréttindi en samtökin segja að hermenn á vegum Muammars Gaddafi hafi nauðgað börnum og að uppreisnarmenn haldi afrískum farandverkamönnum í gíslingu.
Sendinefnd frá Amnesty sem hefur verið að störfum í Líbíu segir að ungum drengjum sem eru í Abu Salim-fangelsinu í Trípólí hafi verið nauðgað af fangavörðum sem eru hliðhollir Gaddafi.
Hefur sendinefndin eftir einum fyrrum fanga að einn drengjanna hafi verið illa útleikinn þegar hann var færður í klefa sinn á ný eftir ofbeldið. Föt hans rifin og hann nánast nakinn. Hann hafi sagt samföngum að honum hafi verið nauðgað ítrekað og öðrum dreng einnig.
Amnesty segir einnig að uppreisnarmenn hafi einnig verið uppvísir að mannréttindabrotum og að samtökin hafi undir höndum vitnisburð um ofbeldi af þeirra hálfu í bænum Zawiyah. Þriðjungur fanga uppreisnarmanna í bænum eru útlendir farandverkamenn, meðal annars frá Chad, Níger og Súdan. Uppreisnarmenn haldi því hins vegar fram að þeir séu málaliðar.
Uppreisnarmenn í Líbíu reyndu í gær að ná síðustu vígjum stuðningsmanna Muammars Gaddafis á sitt vald og hafa hendur í hári hans.
Uppreisnarmennirnir sóttu að heimabæ Gaddafis, Sirte, um 360 km austan við Trípólí. Borgin Sabha í suðvesturhluta landsins er einnig á valdi stuðningsmanna Gaddafis.
Fréttamaður AFP segist hafa orðið vitni að því að franskir og breskir útsendarar hafi aðstoðað uppreisnarmenn frá borginni Misrata. Fregnir herma að breskir sérsveitarmenn hafi verið sendir til Líbíu fyrir nokkrum vikum.
Þjóðarráð uppreisnarmannanna hefur lofað þeim, sem ná Gaddafi lífs eða liðnum, sem svarar tæpum 200 milljónum króna í verðlaun. Leiðtogar uppreisnarmanna segjast vilja að Gaddafi verði sóttur til saka í Líbíu. Alþjóðasakamáladómstóllinn í Haag hefur einnig ákært Gaddafi og son hans, Saif al-Islam, fyrir glæpi gegn mannkyninu.