Rauði krossinn að störfum í Trípólí

Frá Trípólí
Frá Trípólí Reuters

Skurðlækningasveit Alþjóða Rauða krossins kemur til Trípólí í dag til að hjálpa við að annast þann mikla fjölda sem særst hefur í átökunum í Líbíu undanfarna daga.

Hópur skurðlækna frá Rauða krossinum í Finnlandi er einnig væntanlegur til höfuðborgarinnar á morgun. Læknasveitir Rauða krossins flytja með sér birgðir af lyfjum og hjálpargögnum, samkvæmt tilkynningu frá Rauða krossinum.

„Eins og er höfum við nóg til að annast um 500 manns, en það gæti dugað skammt því átökin hafa harðnað mikið síðustu daga," segir George Comninos, yfirmaður skrifstofu Rauða krossins í Líbíu. "Við höfum einnig miklar áhyggjur af því að starfsfólk á sjúkrahúsum kemst ekki til vinnu sinnar. Til að mynda getur Abu Salim slysavarðsstofan, sem er staðsett í miðju verstu átakanna, varla annast þá sem þangað leita vegna skorts á starfsfólki.”

Rauði krossinn hefur undanfarna daga dreift áhöldum til skurðlækninga, næringarvökva í æð, sáraumbúðum og öðrum nauðsynlegum sjúkragögnum og lyfjum til allra helstu sjúkrahúsa og heilsugæslustöðva í Trípólí. Haldið verður áfram að dreifa sjúkragögnum næstu daga.

Rauða krossinum hafa einnig borist ábendingar um fjölmarga einstaklinga sem teknir hafa verið höndum af uppreisnarmönnum og stjórnarhermönnum. Margir þeirra eru með erlent ríkisfang. Rauði krossinn hvetur til þess að allir aðilar virði alþjóðleg mannúðarlög og komi rétt fram við fanga sína.

„Þó svo að okkur hafi tekist að heimsækja þó nokkra sem teknir hafa verið til fanga þurfum við nauðsynlega að fá aðgang að miklu fleiri – sennilega mörg hundruð manns. Við erum að vinna í því að styrkja tengsl okkar við allar stríðandi fylkingar til að fá að heimsækja þetta fólk, og sjá til þess að það sé flutt á viðeigandi staði,” segir Comninos í tilkynningu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert