Sex brynvarðir bílar fóru í gærkvöldi yfir landamæri Líbíu til Alsír. Opinber egypsk fréttastofa hafði þetta eftir heimildarmanni úr röðum uppreisnarmanna í Líbíu og sagði hugsanlegt að háttsettir líbískir embættismenn hafi verið í bílunum, jafnvel Múammar Gaddafi og synir hans.
Fréttastofan MENA sagði, að bílarnir hefðu farið yfir landamærin í gærmorgun við bæinn Ghadames. Hafi hersveitir hliðhollar Gaddafi fylgt bílalestinni þar til hún fór yfir til Alsír. Uppreisnarmenn hefðu ekki getað stöðvað bílalestina þar sem þá skorti skotfæri og búnað.
Gaddafi hefur farið huldu höfði frá því uppreisnarmenn náðu Tripoli, höfuðborg Líbíu, á sitt vald í vikunni.
Stjórnvöld í Alsír neituðu að viðurkenna þjóðarráð uppreisnarmanna í gær og sögðust myndu halda sig við þá stefnu um algert hlutleysi, sem tekin var þegar uppreisnin gegn Gaddafi hófst í febrúar. Önnur lönd á svæðinu hafa viðurkennt þjóðarráðið.