Sjö hafa látist í óveðrinu

Alls hafa sjö manns látið lífið af völdum fellibylsins Írenu, sem fer nú eftir austurströnd Bandaríkjanna í norðaustur.

Fjögur dauðsföll í Norður-Karólínu eru rakin til óveðursins og tvö í Virginíu. Meðal annars lét 11 ára gamall drengur lífið í bænum Newport News í Virginíu þegar tré féll á hann. Þá drukknaði 55 ára gamall maður í Flórída í gær þegar hann fór á brimbretti út í öldurótið, sem fellibylurinn olli.

Veðurfræðingar segja, að fellibylurinn Írena hafi farið að nýju út yfir Atlantshaf og sé nú um 56 km suðaustur af Norfolk í Virginíu. Vindhraðinn er áfram um 36 metrar á sekúndu að jafnaði en styrkur fellibylsins hefur haldist yfir hlýju Atlantshafinu.

Miðja stormsins fer norðnorðaustur með um 25 km hraða. Veðurspár gera ráð fyrir því að Írena fari eftir ströndinni í nótt og fari yfir Nýja-England og New York á morgun.

Fellibylurinn er gríðarlega víðáttumikill og nær yfir 800 kílómetra eða allt frá Karólínuríkjunum til Þorskhöfða. 

Viðvaranir eru ekki lengur í gildi sunnan Surf City í Norður-Karólínu.  Fellibylurinn hefur valdið töluverðu tjóni í Norður-Karólínu og um 900 þúsund heimili og fyrirtæki eru án rafmagns.

Bátur uppi á landi í Norður-Karólínu.
Bátur uppi á landi í Norður-Karólínu.
Mjög var farið að hvessa í New York í kvöld …
Mjög var farið að hvessa í New York í kvöld og það hellirigndi. Var miðborgin líkust draugaborg en afar fáir voru á ferli á 42.stræti sem allajafna er full af bílum og gangandi. mynd/Sveinbjörn Berentsson
Rafmagnsstaurar brotnuðu við ströndina þegar Írena fór yfir.
Rafmagnsstaurar brotnuðu við ströndina þegar Írena fór yfir.
Gervihnattamynd sem sýnir fellibylin við austurströnd Bandaríkjanna í kvöld.
Gervihnattamynd sem sýnir fellibylin við austurströnd Bandaríkjanna í kvöld. Reuters
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert