Hætt er við að fjárfestar eigi eftir að fá martraðir fram eftir hausti því alls hefur óróinn á mörkuðum í ágúst þurrkað út 6.000 milljarða dala í heimshagkerfinu, alls 684.000 milljarða króna. Jafngildir það að þjóðarframleiðsla Íslands í ríflega 400 ár hafi gufað upp.
Það er með þessar tölur í huga sem Christine Lagarde, framkvæmdastjóri Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, varaði við afleiðingum þess að treysta ekki stöðu evrópskra banka þegar hún ræddi stöðuna í heimshagkerfinu á fjármálafundinum í Jackson Hole um helgina.
Fjallað er um ummæli hennar á vef breska dagblaðsins The Guardian en þar segir að evrópskir bankar hafi nú minni aðgang að erlendu lánsfé en áður vegna kreppunnar á evrusvæðinu. Er ofangreindur eignabruni fenginn úr sömu frétt en vitaskuld er ekki auðvelt að henda reiður á tapinu sem fjármálafyrirtæki hafa orðið fyrir. Hin stjarnfræðilega tala bregður þó birtu á þá ákvörðun bankastjóra að segja upp tugþúsundum starfsmanna sinna á undanförnum vikum.
Varar við krappri niðursveiflu
Túlkar breska blaðið ræðu hennar svo að í henni hafi falist ein eindregnasta viðvörun hennar við hættunni á annarri lánsfjárkreppu, líkri þeirri sem skók markaði haustið 2008.
Þá hafi hún þrýst á bandarísk stjórnvöld að sporna gegn frekari lækkun á fasteignaverði vestanhafs. Hvernig það beri að gera fylgir ekki sögunni en eins og rakið hefur verið á mbl.is gengur treglega að selja dýrari eignir í Bandaríkjunum um þessar mundir.