684.000 milljarðar brenna upp

Það þyrfti mörg seðlabúntin til að hafa upp í hátt …
Það þyrfti mörg seðlabúntin til að hafa upp í hátt í 700.000 milljarða króna. Reuters

Hætt er við að fjár­fest­ar eigi eft­ir að fá martraðir fram eft­ir hausti því alls hef­ur óró­inn á mörkuðum í ág­úst þurrkað út 6.000 millj­arða dala í heims­hag­kerf­inu, alls 684.000 millj­arða króna. Jafn­gild­ir það að þjóðarfram­leiðsla Íslands í ríf­lega 400 ár hafi gufað upp.

Það er með þess­ar töl­ur í huga sem Christ­ine Lag­ar­de, fram­kvæmda­stjóri Alþjóðagjald­eyr­is­sjóðsins, varaði við af­leiðing­um þess að treysta ekki stöðu evr­ópskra banka þegar hún ræddi stöðuna í heims­hag­kerf­inu á fjár­mála­fund­in­um í Jackson Hole um helg­ina.

Fjallað er um um­mæli henn­ar á vef breska dag­blaðsins The Guar­di­an en þar seg­ir að evr­ópsk­ir bank­ar hafi nú minni aðgang að er­lendu láns­fé en áður vegna krepp­unn­ar á evru­svæðinu. Er of­an­greind­ur eigna­bruni feng­inn úr sömu frétt en vita­skuld er ekki auðvelt að henda reiður á tap­inu sem fjár­mála­fyr­ir­tæki hafa orðið fyr­ir. Hin stjarn­fræðilega tala bregður þó birtu á þá ákvörðun banka­stjóra að segja upp tugþúsund­um starfs­manna sinna á und­an­förn­um vik­um.

Var­ar við krappri niður­sveiflu

Túlk­ar breska blaðið ræðu henn­ar svo að í henni hafi fal­ist ein ein­dregn­asta viðvör­un henn­ar við hætt­unni á ann­arri láns­fjár­kreppu, líkri þeirri sem skók markaði haustið 2008.

Þá hafi hún þrýst á banda­rísk stjórn­völd að sporna gegn frek­ari lækk­un á fast­eigna­verði vest­an­hafs. Hvernig það beri að gera fylg­ir ekki sög­unni en eins og rakið hef­ur verið á mbl.is geng­ur treg­lega að selja dýr­ari eign­ir í Banda­ríkj­un­um um þess­ar mund­ir.

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Erlent »

Fleira áhugavert
Loka