Illa staddir bankar fari í gjaldþrot

Christine Lagarde
Christine Lagarde Reuters

Það dugar ríkjum heims ekki að draga úr útgjöldum til að standa af sér fjármálakreppuna. Auka þarf hagvöxt og treysta grundvöll banka og fjármálastofnana sem eiga sér lífsvon. Hinum þarf að loka. Þetta er mat Christine Lagarde, framkvæmdastjóra Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, á forgangsverkefnum ríkisstjórna.

Tilgreinir hún ekki hversu mörgum bönkum þurfi að loka né heldur á hvaða mörkuðum.

Lagarde telur jafnframt að stuðla þurfi að auknu gagnsæi hjá fjármálafyrirtækjum.

Hún hvetur til kerfisbreytinga í ríkisfjármálum og segir að áhrifa þeirra muni ekki gæta fyrst um sinn. Brýnt sé að efla framleiðni, stuðla að hagvexti og örva hagkerfið svo draga megi úr miklu atvinnuleysi í fjölmennum ríkjum. Segir hún að öll ríki heims verði að róa öllum árum að því að auka verðmætasköpunina án tafar.

Má af orðum hennar skilja að nokkur misseri muni líða þar til heimshagkerfið verður búið að auka heimsframleiðsluna nægjanlega til að skuldafjallið verði hlutfallslega minna sem hlutfall af heimsframleiðslu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert