Írena yfir New York

Fellibylurinn Írena er nú yfir New York borg í Bandaríkjunum en þetta er fyrsti fellibylurinn aldarfjórðung, sem fer yfir borgina. Óveðrinu fylgir gríðarlegt úrhelli og eldingar. Því er spáð að vindhraðinn verði í upphafi um 22 metrar á sekúndu en síðan um 36 m/s þar sem hvassast verður.

New York var eins og draugaborg í gærkvöldi og afar lítil umferð var á götunum. Um 370 þúsund manns var skipað að fara frá heimilum sínum, einkum í nágrenni Wall Street og Coney Island. Neðanjarðarlestakerfinu var lokað í gær, strætisvagnar og ferjur hættu að ganga og öllum fimm flugvöllum borgarinnar var einnig lokað í gærkvöldi.

Michael Bloomberg, borgastjóri, sagði á blaðamannafundi í morgun, að ekki væri lengur hægt að flýja undan óveðrinu.

„Nú er svo komið, að þeir sem ekki hafa flúið af hættusvæðum ættu að halda sig þar sem þeir eru," sagði hann. „Við ráðum ekkert við náttúruna."

Írena tók land í Norður-Karólínu um hádegisbil í gær. Að minnsta kosti 9 dauðsföll í Norður-Karólínu, Virginíu og á Flórída eru rakin til óveðursins, flestir í umferðarslysum og af völdum fallandi trjáa. 11 ára drengur lét þannig lífið í Newport News í Virginíu þegar tré féll á íbúð sem hann var í.

Víða varð rafmagnslaust þar sem fellibylurinn fór yfir og er talið að yfir tvær milljónir manna séu nú án rafmagns.

Embættismenn í New York segja að mesta hættan stafi ekki af úrkomunni heldur stormflóðum þegar sjór gengur á land undan óveðrinu. Háflóð er nú í morgunsárið. Það eru einkum fjármálahverfið á Manhattan, strandsvæði í Brooklyn og Queens og á Long Island sem eru í hættu. Ekki er talin hætta á að skýjakljúfarnir á Manhattan skemmist en þar gæti orðið rafmagnslaust.

Sjaldgæft er að fellibyljir fari yfir norðausturhluta Bandaríkjanna. Sá síðasti, sem eitthvað kvað að var Gloría árið 1985. 

Par stendur á Times Squeare í nótt en þar er …
Par stendur á Times Squeare í nótt en þar er venjulega krökkt af fólki. Reuters
Manhattan var eins og draugabær seint í gærkvöldi og afar …
Manhattan var eins og draugabær seint í gærkvöldi og afar fáir voru á ferli. mbl.is/Sveinbjörn Berentsson
Fólk hleypur í rigningunni í Hoboken í New Jersey í …
Fólk hleypur í rigningunni í Hoboken í New Jersey í gærkvöldi.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert