Angela Merkel, kanslari Þýskalands, hefur ekki lengur þingmeirihluta fyrir neyðarlánum til handa skuldsettustu evruríkjunum. Merkel hefur hætt við opinbera heimsókn til Rússlands, eins mikilvægasta viðskiptaríkis Þýskalands, 7. september næstkomandi vegna þessarar óvissu.
Það er Ambrose Evans-Pritchard, viðskiptaritstjóri Daily Telegraph, sem fjallar um hina erfiðu stöðu sem Merkel og hugmyndir hennar um aðgerðir til handa evrusvæðinu eru komnar í.
Bendir viðskiptaritstjórinn á að sama dag og heimsóknin til Rússlands var ráðgerð muni þýski stjórnskipunardómstóllinn úrskurða hvort neyðarlánin standist þýsku stjórnarskrána.
Mun dómstóllinn leggja mat á hvort það standist ákvæði stjórnarskrár Þýskalands um fullveldi í peningamálum að þýska stjórnin leggi fé í björgunarsjóð sem sé skref í átt að yfirþjóðlegu valdi í efnahagsstjórn evruríkjanna.
En Þýskaland er með stærsta hagkerfi Evrópu og þar með evrusvæðisins, auk þess að vera langöflugasta útflutningsvél álfunnar.
Evans-Pritchard segir það hafa komið fram í þýskum fjölmiðlum að 23 þingmenn í stjórn Merkel hyggist greiða atkvæði gegn áætluninni, þar með talið 12 þingmenn úr systurflokki Kristilegra demókrata í Bæjaralandi.
Uppreisnin þýði að líf stjórnarinnar kunni að hanga á bláþræði.