Norska fjöldamorðingjanum Anders Behring Breivik berast ástarbréf í stríðum straumum frá konum víðs vegar að úr heiminum. Sum bréfin berast frá kristnum konum sem vilja hjálpa honum á rétta braut og aðrar konur virðast finna til móðurlegrar umhyggju gagnvart honum.
Hann fær þó ekki að njóta bréfanna, þar sem hann má hvorki lesa bréf né fá heimsóknir. Einnig hefur honum borist ómælt magn hatursbréfa.
Frá þessu segir á fréttavef norska dagblaðsins Aftenposten. Þar segir fangelsispresturinn Kjell Arnold Nyhus þetta ekki koma sér á óvart. „Ég er hvorki hneykslaður né undrandi. Það er svo mikið af sérstöku fólki úti í samfélaginu, sem er á mörkum andlegs heilbrigðis, sem finnur upp á því að gera svona hluti,“ segir Nyhus.
Stjórnendur fangelsisins, þar sem Breivik er í haldi, hafa ekki viljað tjá sig um bréfasendingarnar.