Sjötugur breskur afi varð í morgun elsti maðurinn til að synda yfir Ermarsundið. Hann stakk sér til sunds á Shakespeare-strönd í Dover klukkan átta í gærmorgun og náði landi í Wissant í Frakklandi eftir tæplega 18 klukkustunda sund.
Sundgarpurinn, sem heitir Roger Allsopp, er brjóstakrabbameinsskurðlæknir á eftirlaunum og honum til aðstoðar á sundinu var bátur, sem fylgdi honum og vísaði honum veginn, en Ermarsundið er ein af fjölförnustu skipaleiðum heims.
„Mér finnst ég hafa unnið afrek og mér er líka létt yfir því að þetta tókst svona vel,“ sagði Allsopp í morgun. „Þetta var mikil persónuleg áskorun fyrir mig. Það, að maður á mínum aldri skuli hafa staðist slíka líkamlega og andlega raun, sýnir fram á að andleg og líkamleg virkni heldur fólki ungu.“
Með sundinu var Allsopp að safna fé til tækjakaupa fyrir krabbameinsrannsóknir við háskólann í Southampton.
Starfsmaður heimsmetabókar Guinness, Anna Orford, sagði að nýtt met hefði verið sett. Fyrra metið átti Bandaríkjamaðurinn George Brunstad, sem var 70 ára og fjögurra daga þegar hann þreytti sundið í ágúst 2004, en Allsopp er sjötugur og fjögurra mánaða.