Fátækum fjölgar í Danmörku

Mynd úr myndasafni.
Mynd úr myndasafni. RAX / Ragnar Axelsson

Þrátt fyrir að ójöfnuður í Danmörku hafi aukist undanfarin ár er lítið rætt um hvernig megi bæta úr því í yfirstandandi kosningabaráttu. Meira en 230 þúsund Danir eru skilgreindir sem fátækir og meira en 56 þúsund hafa verið fátækir í þrjú ár eða lengur. Það er mikil aukning frá árinu 2002, þegar sambærilegur fjöldi var 35 þúsund manns.

Frá þessu segir á vefsíðu Kristlega dagblaðsins, Kristeligt dagblad.

„Þau hafa ekki ráð á hollum mat, fríum, tölvum eða afþreyingu,“ segir í fréttinni. „Þrátt fyrir að bæði fátækt og ójöfnuður hafi aukist undanfarinn áratug eru þeir verst settu næstum því ósýnilegir í kosningabaráttunni. Hjálparstofnanir segja stjórnmálamenn bera stóran hluta ábyrgðarinnar og segja þá loka augunum fyrir vandanum.

„Það er á mörkunum að vera broslegt hvað stjórnmálamennirnir tala mikið um efnahagsmál og minnast svo ekki á fátæktina. Fátækt hefur aukist undanfarin tíu ár og þeir fátæku lifa í einhvers konar hliðarsamfélagi við aðra. Þeir skrifa ekki lesendabréf eða taka þátt í rökræðum og þess vegna hættir okkur til að líta fram hjá þeim,“ segir Birgitte Graakjær Hjort, sóknarprestur og yfirmaður félagsþjónustu KFUK í Danmörku.

Í sama streng tekur Per K. Larsen, sem er ritari landssamtaka gegn fátækt, EAPN. „Fátækt fyrirfinnst næstum því ekki í kosningabaráttunni. Danmörk er eitt fárra landa í Evrópu þar sem fátækt hefur aukist og það ætti að vera hættumerki,“ segir Per.

„Danir sýna sveltandi íbúum Austur-Afríku mikinn samhug, en það er greinilega erfiðara að koma þannig fram við fólk sem er fyrir augunum á manni.“

Frétt Kristilega dagblaðsins

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert