Óstaðfestar fregnir herma að Múammar Gaddafi haldi sig í bænum Bani Walid, suðaustur af Trípólí, en bærinn er enn á valdi hersveita einræðisherrans. Þetta er haft eftir varaformanni þjóðarráðs uppreisnarmanna, Abdel Hafiz Ghoga, í dag.
„Við höfum heimildir fyrir því að Múammar Gaddafi hafi dvalið í Bani Walid síðastliðna tvo daga, en þessar upplýsingar hafa ekki fengist fullkomlega staðfestar,“ sagði Ghoga. Hann sagði að enn væru í gangi skærur milli uppreisnarmanna og stuðningsmanna Gaddafis í nágrenni bæjarins.
„Uppreisnarmönnunum miðar áfram og við vonumst eftir að sjá fyrir endann á átökunum bráðlega,“ sagði hann einnig.
Leiðtogi uppreisnarmanna í bænum Tarhuna segist hafa vísbendingar um að tveir sona Gaddafis, Saif al-Islam og Mutassim, haldi sig einnig í Bani Walid.
„Um 80% íbúa Bani Walid eru á bandi uppreisnarmanna og aðeins 20% á bandi Gaddafis,“ sagði hann. „Við gerum ráð fyrir að þeir muni gefast upp en ef ekki munum við ráðast að þeim frá þremur hliðum,“ bætti hann við án þess að útskýra það nánar.
Þjóðarráðið hefur framlengt frest liðssveita Gaddafis til að gefast upp um eina viku.