Ætlar að kynna lækkun skatta

Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, ætlar í ræðu sinni í næstu viku að tilkynna lækkun skatta í þeim tilgangi að reyna að örva atvinnulífið, en tölur um atvinnuleysi í Bandaríkjunum, sem birtar voru í dag, eru ekki uppörvandi fyrir forsetann.

Tölurnar sem birtar voru í dag sýna að engin ný störf urðu til í Bandaríkjunum í ágústmánuði. Atvinnuleysið mælist núna 9,1% sem þýðir að um 14 milljónir manna eru án vinnu í Bandaríkjunum. Tölurnar ollu lækkun hlutabréfa í Bandaríkjunum og víðar um heiminn.

Obama ætlar í næstu viku að flytja ræðu þar sem hann tilkynnir hvaða leiðir hann vill fara til að skapa ný störf í Bandaríkjunum. Gene Sperling, ráðgjafi forsetans í efnahagsmálum, segir að í ræðu sinni muni Obama útskýra hvaða sýn hann hafi á verkefnið þegar til framtíðar er litið. Hann muni einnig kynna lækkun skatta á launafólk og smáfyrirtæki.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert