Gaddafi hvetur Líbíumenn til að berjast gegn uppreisnarmönnum í útvarpsávarpi sem sent var út í gær og segir að barist verði um allt land, til að sýna uppreisnarmönnum að þeir ráði hvorki yfir landi né þjóð.
„Ef þeir vilja hefja langvarandi stríð við okkur, þá þarf svo að vera. Við munum berjast borg úr borg, frá dal til dals, frá fjalli til fjalls; látum þetta verða langvarandi og við munum sýna þeim að þeir geti hvorki stjórnað Líbíu né líbísku þjóðinni,“ segir Gaddafi í ávarpinu.
Í öðru ávarpi, sem einnig var gert opinbert í gær, segi Gaddafi að hann muni spilla fyrir olíuútflutningi þjóðarinnar. „Við erum ljón eyðimerkurinnar, þið munuð ekki fá yfirráð yfir olíulindunum og höfnunum. Kæru Líbíumenn; verið reiðubúnir til að veita uppreisnarmönnum mótspyrnu,“ sagði Gaddafi.
Dvalarstaður Gaddafis er enn á huldu, en getgátur hafa verið uppi um að hann leynist í eyðimerkurbænum Bani Walid, sem er fyrir sunnan höfuðborgina Trípólí.