Auka þrýsting á Sýrland

Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra sótti fund utanríkisráðherra ESB sem fram fer …
Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra sótti fund utanríkisráðherra ESB sem fram fer í Póllandi. Reuters

Utanríkisráðherrar Evrópusambandsins samþykktu á fundi í Póllandi í dag að auka þrýsting á stjórnvöld í Sýrlandi. Í ályktun fundarins eru þjóðir heims hvattar til að eiga ekki viðskipti við þrjú olíufélög í Sýrlandi. Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra sótti fundinn.


Catherine Ashton, utanríkismálastjóri ESB, segir að Evrópusambandið vilji ganga lengra í efnahagsþvingunum á Sýrland. Alain Juppé, utanríkisráðherra Frakklands, sagði líka eftir fundinn að þrýstingur á Bashar al-Assad, forseta Sýrlands, yrði aukinn.

Mannfall hefur haldið áfram í Sýrlandi síðustu daga, en talið er að yfir 2.000 manns hafi fallið í mótmælum í landinu.

Á fundi utanríkisráðherranna í Póllandi var einnig rætt um hvernig ætti að bregðast við umsókn Palestínumanna um aðild að Sameinuðu þjóðunum. Ekki er full eining innan ESB um hvernig eigi að halda á málinu af hálfu sambandsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert