Starfsmenn Anglo Irish Bank, eins stærsta banka Írlands fyrir fjármálakreppuna haustið 2008, eyddu hundruðum þúsunda evra, sem svarar tugmilljónum króna, í samkvæmi á eigin vegum og skemmtanir fyrir viðskiptavini vikurnar áður en bankinn var ríkisvæddur í janúar 2009.
Það er Irish Times, helsta dagblað Írlands, sem segir frá þessu en á vef þess kemur fram að bankinn hafi varið 80.000 evrum, ríflega 13 milljónum króna, í veislu fyrir 600 starfsmenn sína í Dyflinni í september 2008.
Þar af drukku starfsmennirnir vínföng fyrir á fjórðu milljón króna við undirleik hljómsveitar sem var greitt fyrir að hafa ofan af fyrir bankafólkinu.
En Irish Times rifjar upp að um þetta leyti hafi bankar leitað logandi ljósi að lánsfé til að endurfjármagna sig.
Bankinn lét andstreymið hins vegar ekki setja stórt strik í reikninginn þegar samkomur voru annars vegar og varði hátt í 30 milljónum króna í jólaboð til handa starfsmönnunum í desember 2008.
Grein Irish Times má lesa í heild sinni hér.