Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, segist ekki hafa hvatt kínverska fjárfestinn Huang Nubo til fjárfestinga hér á landi, en fagnar áformum hans um að kaupa Grímsstaði á Fjöllum. Þetta kom fram í samtali sem RÚV átti við forsetann í dag.
Ólafur Ragnar sagði að tengsl fjárfestisins við kínverska kommúnistaflokksins engu máli skipta. Forsetinn fagnaði landakaupum Huang Nubo hér á landi í viðtali við Financial Times í gær og sagði enga ástæðu til að óttast fjárfestingar Kínverja. Hann sagði í samtali við RÚV að umræðan um málið í evrópskum fjölmiðlum hefði verið að þróast í gjörningaveður gagnvart Íslandi, og mikilvægt hefði verið að koma á framfæri að engin ástæða væri til að óttast kínverska athafnamenn frekar en frá Evrópu eða Bandaríkjunum.