Færi svo að gefin yrðu út sameiginleg skuldabréf fyrir ríki evrusvæðisins myndi lánshæfiseinkunn bréfanna taka mið af stöðu efnahagsmála í því þátttökuríki útgáfunnar þar sem hagkerfið stæði veikustum fótum. Þetta er mat yfirmanns hjá matsfyrirtækinu Standard & Poor's í Evrópu.
Það er Moritz Kraemer, yfirmaður matsdeildar Standard & Poor's í evrópskum skuldabréfum, sem heldur þessu fram en hann ræddi stöðuna á evrusvæðinu í fyrirlestri í Alpbach í Austurríki í dag.
Fréttavefur Bloomberg segir frá þessu og rifjar upp að Jean-Claude Juncker, bankastjóri Seðlabanka Evrópu, og Giulio Tremonti, fjármálaráðherra Ítalíu, hafi lýst yfir stuðningi við útgáfu sameiginlegra evrubréfa en Angela Merkel, kanslari Þýskalands, hins vegar lýst sig andvíga hugmyndinni.
Segir Bloomberg að útgáfa sameiginlegra bréfa myndi þýða að sum ríkjanna gætu fengið hagstæðari lánakjör á skuldabréfum en þeim standa til boða í dag.