Tveimur vikum áður en þingkosningar fara fram í Danmörku benda skoðanakannanir til þess að vinstriflokkarnir muni sigra í kosningunum. Gangi það eftir verður Helle Thorning-Schmidt, leiðtogi jafnaðarmanna, næsti forsætisráðherra landsins.
Samkvæmt nýjustu könnun eru vinstriflokkarnir með 53% fylgi en hægriflokkarnir, sem farið hafa með stjórn landsins frá árinu 2001, mælast með 47% fylgi. Kosningarnar fara fram 15. september.
Stærsta stjórnarandstöðuflokknum, Jafnarðarmannaflokknum, er spáð samkvæmt nýjustu könnun 26,8% fylgi, en flokkurinn fékk 25,5% í síðustu kosningum. Venstre, flokki Lars Løkke Rasmussen forsætisráðherra, er spáð 23,9% fylgi, en hann fékk 26,3% í kosningunum sem fram fóru 2007.
Staðan í efnahagsmálum er mikilvægasta mál kosninganna, en einnig beinast sjónir manna talsvert mikið að forystumönnum fylkinganna. Í könnun sem Ritzau lét gera segjast 45,8% helst vilja fara út að drekka bjór með Lars Løkke Rasmussen en 39,8% segjast frekar vilja fá sér bjór með Helle Thorning-Schmidt.