Einn af helstu herforingjum í liði uppreisnarmanna í Líbíu hefur krafist þess að leyniþjónustur Bandaríkjanna og Bretlands biðjist afsökunar á því að hafa tekið þátt í að handsama hann og pynta.
Uppreisnarmenn hafa fundið skjöl í skjalasafni leyniþjónustu Gaddafis sem sýna að leyniþjónusta Bretlands MI6 og leyniþjónusta Bandaríkjanna CIA, tóku þátt í að handtaka Belhaj.
Abdul Hakim Belhaj, hefur stjórnað herliði sem barist hefur gegn Gaddafi. Hann ræddi við breska blaðið Guardian en hann segist vera að íhuga að fara í mál vegna meðferðarinnar á sér. Blaðið segir að saga hans veki spurningar um hvað breska leyniþjónustan vissi um pyntingar sem stundaðar voru af mönnum Gaddafis.
Í skjalasafni Gaddafis er að finna skjal þar sem háttsettur yfirmaður MI6 hælir sér af því að leyniþjónustan hafi leitt Belhaj í gildru sem leiddi til handtöku hans 6. mars árið 2004. Belhaj var þá háttsettur í baráttusamtökum íslamista. Hann var síðan fluttur til Bangkok og afhentur CIA. Þar var hann að eigin sögn pyntaður og fluttur síðan til Líbíu til frekari yfirheyrslna.
Skjölin sýna að fimm dögum áður en hann var fluttur aftur til Trípóli gaf MI6 honum falskt nafn og tilkynnti að hann væri í haldi í Malasíu. Belhaj segir í samtali við Guardian að breskir njósnarar hafi verið meðal þeirra fyrstu sem yfirheyrðu hann þegar hann kom aftur til Trípólí. Hann segir að hann hafi verið mjög hissa á að Bretar hafi tekið þátt í þessu. Hann segist ekki hafa séð sólarljós í eitt ár og ekki hafa fengið að fara í bað í þrjú ár og að á þessum tíma hafi hann reglulega verið pyntaður. Honum var sleppt úr haldi fyrr á þessu ári og gekk þá strax til liðs við uppreisnarmenn sem nú fara með völdin í Líbíu.